Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sanngjörn meðferð hinna ábyrgu.

Heyrst hefur innan úr herbúðum þeirra sem þekkja til fjármálafjóshaugsins á Íslandi, að mykjan sé rétt að byrja að leka út. Meiri og verri óþverri eigi eftir að koma í ljós. Hverju á að trúa? Þessi uppákoma í kring um Sjóvá, og önnur fyrrum stöndug íslensk fyrirtæki, sýnir að valda(peninga)stéttirnar kærðu sig kollóttar um það hvernig þær léku samfélagið og íslenskt alþýðufólk. Því fyrr sem sérstakur saksóknari getur komist að niðurstöðu um málsmeðferð þeirra sem hér bera ábyrgð, því betra. Samfélag okkar verður að finna fyrir sanngjörnum málalyktum þegar dæmt verður um ábyrgð þessara manna.


mbl.is 16 milljarðar inn í Sjóvá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mjög sérkennilegur húmor.

Það er sérkennilegur húmor sem þarna kemur fram hjá Sigurði G. Guðjónssyni. Maðurinn hlýtur að vera að grínast. Vandinn er sá að vísast á almenningur erfitt með að ná gríninu. Rétt er að minna á að Baldur Guðnason tilheyrir fjármálaelítunni eins og hún var árið 2007 og fyrr. Skattakóngur með meiru. Þessi ágæti maður tók við Eimskipafélagi Íslands þegar það var enn nokkurn veginn venjulegt fyrirtæki í ósköp venjulegu samfélagi á vestræna vísu. En það var sko ekki nóg. Menn ætluðu sér meira. Baldur náði að gera Eimskipafélagið að bestasta fyrirtæki í heimi sem malaði tært og hreint gull fyrir eigendur sína. Ekki satt??!! Mikið grín og mikið gaman. Enda allir hluthafar í hinu gjaldþrota óskabarni þjóðarinna eflaust jafn alsælir og Sindri Sindrason stjórnarformaður var með störf Baldurs í ársbyrjun árið 2008.


mbl.is Sigurður G: „Sérstakur dómur“ yfir Baldri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með stuðningi Davíðs Oddsonar og Halldórs Ásgrímssonar

Það er sorglegt en þó satt að slátrun á almenningi, konum og börnum í Írak var gerð með yfirlýstum stuðningi Davíðs Oddsonar og Halldórs Ásgrímssonar. Pyntingarnar sem Bandaríkjamenn hafa stundað þvert á alla alþjóðasamninga eru á ábyrgð þeirra sem stutt hafa stríðsreksturinn í Írak. Áðurnefndir sómamenn drógu Íslensku þjóðina ofan í ofbeldissvaðið með svo ruddafengnum hætti að það hlýtur að jaðra við landráð. Íslenska þjóðin sem þó gat amk. fram að þessu óhæfuverki, verið stolt af því að fara aldrei með ofbeldi á hendur annarra þjóða, situr uppi með svívirðuna. Skyldu ofbeldismenn á Íslandi aldrei þurfa að standa reikningsskil gjörða sinna ef brotin eru bara nógu stór?
mbl.is Bush ver harkalegar yfirheyrslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefði mátt vera hvassari í framsetningu.

Þorfinnur Guðnason kvikmyndaleikstjóri skrifar ágætt andsvar í Fréttablaðið þann 20. maí. Hann er þar að bregðast við greinaskrifum Skúla Thoroddsen og Jóns Kristjánssonar vegna myndar hans og Andra Snæs Magnasonar Draumalandið. Þorfinnur skrifar andsvar sitt á umburðarlyndan og kurteisan hátt. Sem er jú alveg sjálfsagt. En ef hægt væri að gagnrýna Draumalandið  fyrir eitthvað þá er það umburðarlyndi og kurteisi við aðalleikarana í þeim þjóðarharmleik sem Kárahnjúkavirkjun og álverið á Reyðarfirði eru. Draumalandið var löngu tímabær mynd. Hún hefði þó að mínu áliti mátt vera enn ákveðnari í frásögn sinni, hvassari í endursögninni og óvægnari í lýsingu á framgöngu manna. Því nota bene, þessi skelfing er verk ákveðinna manna og kvenna. Sanngjarnt hefði verið að gefa formönnum stjórnarflokkana og einstökum ráðherrum enn meira pláss og lýsa inngripum og ákvörðunum nánar í því ferli þegar verið var að troða þessum óskapnaði ofan í þjóðina. Næst á eftir stærsta þjófnaði í sögu Íslands, sem var setning kvótalaganna, þá er Kárahnjúkavirkjun stærsta glæpaverk Íslandssögunnar. Þeirri glæpasögu er langt frá því lokið því við sem nú lifum eigum eftir að sjá hærri reikninga fyrir þessu óhæfuverki en við getum ímyndað okkur í dag. Svo ekki sé talað um afkomendur okkar.


Misheppnuð upplýsingagjöf – eða hvað?

Stjórnvöld eiga í vandræðum með að kynna aðgerðir sínar í efnahagsmálum og til bjargar fyrirtækjum og heimilum. Getur það verið að það sé vegna þess að engar áætlanir eru uppi? Að verkefnið sé of stórt fyrir smáa þjóð að höndla? Eða er það bara vegna þess að ráðgjafar stjórnvalda í upplýsingagjöf og markaðsfólkið eru ekki að ná utanum verkefnið að koma skilaboðunum til almennings þannig að tilætluðum árangri verði náð?

Það vakti athygli fyrir nokkrum dögum þegar Upplýsingamiðstöð stjórnvalda birti heilsíðu blaðaauglýsingu um úrræði til handa þjóð í vanda. Verið var að auglýsa island.is. Í auglýsingunni er bent á rafrænar upplýsingasíður um allt sem herjar á þjóðina núna; úrræði vegna efnahagsþrenginga, hvar á að leita eftir aðstoð, endurreisn fjármálakerfisins, leiðir fyrir fyrirtæki í vanda, já og einnig fjölskyldur o.s.frv. Eftir að hafa rennt yfir allar þær leiðir sem þarna voru tíundaðar og eru til þess fallnar væntanlega að hjálpa þjóð úr dimmu í dagsbirtu, þá kom rúsínan í pylsuendanum. Neðst á síðunni er nefnilega bent á upplýsingasíðu um hvar megi tjalda á Íslandi!! Þetta er húmor í lagi. Þegar almenningur er búinn reyna allar neyðarleiðirnar og ekkert virkar þá þarf hann að sjálfsögðu að vita hvar megi tjalda á Íslandi. Er þessi upplýsingasíða um tjaldstæði ætluð þeim fjölskyldum sem munu missa allar eigur sínar? Þá er nú gott að vita hvar má tjalda! Þetta kallar maður nú kímni í lagi.


Valdaklíkurnar gefa ekkert eftir.

Það vakti sérstaka ónotakennd að lesa viðtal við Einar Sveinsson fyrrverandi stjórnarformann Íslandsbanka, sem birtist í Morgunblaðinu í vikunni sem leið. Ég tók þá ákvörðun að geyma eintakið og lesa viðtalið aftur yfir að nokkrum dögum liðnum. Ekki skánaði það við seinni lestur. Þessi fyrrum stjórnarformaður Íslandsbanka skilgreinir sig sem fórnarlamb hins illa ríkisvalds, sem sé að hrifsa til sín eigur hans og annarra. Af einskærum illvilja að því best verður séð. Einmitt. Einar Sveinsson kom hvergi að því að keyra Íslandsbanka í þrot, hann kom hvergi að ákvörðunum um útlánastefnu bankans  og hann kom hvergi að þenslubrjálæðinu, sem að lokum kollkeyrði efnahagskerfið. Það er að vísu alveg rétt hjá honum að vel rekin fyrirtæki, sem hafa undir skynsamri stjórn og með dugmiklum starfsmönnum vegnað vel á undanförnum árum, eru mörg hver í erfiðleikum um þessar mundir. Þá erfiðleika má fyrst og fremst rekja til verka þeirra fjármálalegu óhæfumanna sem keyrðu efnahagskerfi okkar í þrot. Aðkoma ríkisins (sem nota bene er almenningur í landinu) að fyrirtækjum við þessar aðstæður er neyðarbrauð, gerð til þess að hreinsa upp eftir sukkorgíu fjárglæpamanna. Það er ánægjulegt að hafa tækifæri á að upplýsa Einar Sveinsson um þetta.

Annars minnir þetta viðtal mann á að það eru engin teikn á lofti um að valdaklíkur og valdastéttir á Íslandi hugsi sér að taka höndum saman við almenning í landinu í endurreisnarstarfinu framundan. Auðmanna- og valdastéttirnar munu ekkert gefa eftir og spillingin er ekki horfin (http://eyjan.is/goto/sme/). Almenningur og launafólk þarf að rifja það upp að Ísland er stéttskipt þjóðfélag og valdastéttirnar munu gera allt sem þær geta til að láta almenning borga fyrir sig brúsann. Það er kominn tími til að rifja upp hugtök stéttabaráttunnar og  muna að valdastéttirnar hafa engan áhuga á velferð launafólks, nema til þess eins að láta það strita og hafa af því peninga.


Vantar enn meira í myndina

Morgunblaðið var með myndrænt yfirlit um helgina sem lýsti styrkjum til stjórnmálaflokka og manna og hafa verið í umræðunni frá því Stöð 2 upplýsti um tugmilljónastyrkinn til Sjálfstæðisflokksins. Mikið hefur verið fjallað um þessi mál og margt sagt. Nauðsynlegt er að ganga lengra í þessum efnum. Í endurreisn samfélagsins verður þjóðin öll að standa saman um að velta við öllum þeim steinum sem þörf krefur. Við verðum sem þjóð að ná aftur sáttum við okkur sjálf og það samfélagskerfi sem við höfum byggt upp. Við verðum að hafa hugrekki til að horfast í augu við okkur sjálf og lyfta hiklaust lokum af þeim ormagryfjum, sem fóstrað hafa þá stríðalda maðka sem smogið hafa samfélag okkar síðustu tvo áratugina. Hvernig á þjóðin annars að geta sæst við sjálfa sig?

Rætt hefur verið um að stjórnmálamenn og flokkarnir opni bókhald sitt fyrir árið 2006. Þetta er alltof hógvær krafa. Til að kafa ofaní óeðlileg tengsl (ef einhver eru) stjórnmálaflokka og manna við viðskiptalífið og peningaöfl, þarf að opna bókhald þeirra frá því kvótalögin voru sett. Almenningur á rétt að fá allar upplýsingar á borðið um fjármál stjórnmálaflokkana og stjórnmálamanna á 25 ára stjórnartímabili eyðileggingarinnar undir forystu Halldórs Ásgrímssonar, Davíðs Oddsonar og þeirra taglhnýtinga. Það þarf að kafa ofan í hvað var að gerast í þessum málum við setningu kvótalagana, við upphaf framsalsheimilda, við veðsetningarheimildina, við einkavæðingu bankakerfisins, við einkavæðingu annarra ríkisstofnana svo fátt eitt sé nefnt og lýsa öllum tengslum stjórnmálaafla við forréttindahópana, sem þrifust undir verndarvæng þeirra sem stýrðu herferðinni gegn samfélagi okkar.


Sykurskattur – er það góð hugmynd?

Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra hefur opinberað þá hugmynd sína að setja sérstakan sykurskatt á gosdrykki. Þessa hugmynd setur hann fram í kjölfarið á umræðunni um herkostnaðinn af leiftursókn Davíðs Oddsonar og Halldórs Ásgrímssonar gegn þeim sem berskjaldaðastir eru í okkar samfélagi; nefnilega börnum. Þeir fóstbræður og samfélags-skemmdarvargar sáu sér nefnilega sæmd í því að hefta aðgang barna og ungmenna að mannsæmandi tannlæknaþjónustu. Það var svo sem eftir öðru og í samræmi við önnur skemmdarverk sem þeir unnu á íslensku samfélagi. Það mætti draga þá ályktun að heilbrigðisráðherra væri með þessu að tryggja frekari tekjustofna sem væru sérstaklega eyrnamerktir til forvarna eða tannheilsuverkefna. En svo er ekki samkvæmt ummælum  ráðherrans. Þessi hugmynd um sérstakan sykurskatt er ekki skynsamleg. Ráðherrann má ekki gleyma því að með því að hækka verð á gosdrykkjum er hann að leggja til að lánakostnaður almennings þyngist. Hækkun á gosdrykkjum, sem og t.d. eldsneyti og áfengi, hækkar vísitölu neysluverðs og hækkar höfuðstól lána hjá almenningi. Er það ásetningur jafnaðarmannastjórnar Íslands að þyngja skuldir heimila á Íslandi? Ef jafnréttissinnuð ríkisstjórn vill vinna að betri tannheilsu barna (sem er jú mannréttindamál í velferðarsamfélagi) þá þyngir hún ekki lánabagga almúgans. Allra síst þegar almenn krafa er er uppi um að leita leiða til að létta þann skuldabagga. Nei, hugmyndin er vond. Hvernig væri að huga að almennri, sanngjarni skattheimtu? Þar sem hinir efnameiri leggja meira til velferðarkerfisins til jöfnunar og heilla fyrir samfélagið allt? Þá ætti að vera einfalt mál að tryggja börnum og ungmönnum sjálfsagða og eðlilega tannlæknaþjónustu.


Tannlækningar - er þörf á grundvallarbreytingum?

Tannlæknar hafa sýnt gott frumkvæði með Hjálparvakt tannlækna. Með starfi sínu hafa þeir loksins opnað umræðuna um stöðu tannlækninga í samfélaginu og eiga þeir þakkir skilið fyrir það. Aðför ríkisstjórna Davíðs Oddsonar og Halldórs Ásgrímssonar að þeim sem höllum fæti standa í samfélaginu einskorðaðist ekki bara við aldraða, sjúka og öryrkja. Það þurfti einnig að herja á réttindi barna til sjálfsagðrar tannlæknaþjónustu. Uppbyggingarstarf við forvarnir tannheilsu og þeim árangri sem náðist á sínum tíma var rústað með breytingum á endurgreiðslu og niðurlagningu á skólatannlækningum.  

Sigfús Þór Elíasson prófessor við tannlæknadeild HÍ segir að ástandið sé ekki bara tannheilbrigðismál heldur barnaverndarmál (Mbl. 11. maí 2009). Bragi Guðmundsson forstjóri Barnaverndarstofu tekur undir það með því að segja að stjórnvöld geti ekki fríað sig ábyrgð vegna þessa. Þetta er athyglisverð yfirlýsing vegna þess að Barnaverndarstofa er æðsta stofnum ríkisins í málefnum barna og ungmenna. Hennar hlutverk hlýtur að vera að benda á það sem betur má fara í aðbúnaði barna og það má furða sig á því hvers vegna stofnunin hafi ekki fyrir löngu verið búin að opna þessi mál. Ástandið hefur verið þekkt innan grunnskólakerfisins og á öðrum vettvangi barnastarfs, allt frá því að skemmdarverkin á kerfinu voru unnin. 

Það að þetta mál sé opnað núna með þessum hætti varpar fram þeirri grundvallarspurningu hvort að fyrirkomulag tannlæknaþjónustu sé ásættanlegt og hvort aðkoma ríkisins að þeirri þjónustu sé eðlileg. Er ekki tími til kominn að endurskoða þetta fyrirkomulag. Hvers konar fyrirkomulag er það að hvaða tannlæknir sem er virðist geta opnað tannlæknastofu, veitt skjólstæðingum sínum þjónustu og sent ríkinu reikninginn? Tannlæknar starfa á einkamarkaði og með þessu fyrirkomulagi þá erum við með ríkisrekna einkastarfsemi! Vitlausara getur þetta nú varla orðið, enda má sjá að þarna ríkir enginn samkeppni og verðmyndun öll fáránleg (sjá:  http://ns.is/ns/frettir/?cat_id=6413&ew_0_a_id=324111). Það er ýmislegt sem þarf að endurskoða og endurhanna í okkar velferðarþjónustu og í okkar samfélagi. Fyrirkomulag læknaþjónustu og tannlæknaþjónustu er eitt þeirra verkefna. Við eigum að endurvekja skólatannlækningar. Við eigum að setja tannlækningar inn í þjónustuþátt í heilsugæslukerfinu og innan sjúkrahúsanna, þar sem tannlækningar væru reknar sem hver önnur læknaþjónusta innan þessa opinbera kerfis. Þangað á almenningur að geta sótt alla almenna tannlæknaþjónustu. Þeir tannlæknar sem síðan myndu kjósa að standa utan þessarar almannaþjónustu myndu síðan bara gera það.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband