Valdaklíkurnar gefa ekkert eftir.

Það vakti sérstaka ónotakennd að lesa viðtal við Einar Sveinsson fyrrverandi stjórnarformann Íslandsbanka, sem birtist í Morgunblaðinu í vikunni sem leið. Ég tók þá ákvörðun að geyma eintakið og lesa viðtalið aftur yfir að nokkrum dögum liðnum. Ekki skánaði það við seinni lestur. Þessi fyrrum stjórnarformaður Íslandsbanka skilgreinir sig sem fórnarlamb hins illa ríkisvalds, sem sé að hrifsa til sín eigur hans og annarra. Af einskærum illvilja að því best verður séð. Einmitt. Einar Sveinsson kom hvergi að því að keyra Íslandsbanka í þrot, hann kom hvergi að ákvörðunum um útlánastefnu bankans  og hann kom hvergi að þenslubrjálæðinu, sem að lokum kollkeyrði efnahagskerfið. Það er að vísu alveg rétt hjá honum að vel rekin fyrirtæki, sem hafa undir skynsamri stjórn og með dugmiklum starfsmönnum vegnað vel á undanförnum árum, eru mörg hver í erfiðleikum um þessar mundir. Þá erfiðleika má fyrst og fremst rekja til verka þeirra fjármálalegu óhæfumanna sem keyrðu efnahagskerfi okkar í þrot. Aðkoma ríkisins (sem nota bene er almenningur í landinu) að fyrirtækjum við þessar aðstæður er neyðarbrauð, gerð til þess að hreinsa upp eftir sukkorgíu fjárglæpamanna. Það er ánægjulegt að hafa tækifæri á að upplýsa Einar Sveinsson um þetta.

Annars minnir þetta viðtal mann á að það eru engin teikn á lofti um að valdaklíkur og valdastéttir á Íslandi hugsi sér að taka höndum saman við almenning í landinu í endurreisnarstarfinu framundan. Auðmanna- og valdastéttirnar munu ekkert gefa eftir og spillingin er ekki horfin (http://eyjan.is/goto/sme/). Almenningur og launafólk þarf að rifja það upp að Ísland er stéttskipt þjóðfélag og valdastéttirnar munu gera allt sem þær geta til að láta almenning borga fyrir sig brúsann. Það er kominn tími til að rifja upp hugtök stéttabaráttunnar og  muna að valdastéttirnar hafa engan áhuga á velferð launafólks, nema til þess eins að láta það strita og hafa af því peninga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Margrét Sigurðardóttir

Og er það ekki undarlegt að þeir kalli sig félagshyggjuflokka, þeir sem eru í ríkisstjórn og hjállpa valdastéttinni að ræna þjóðina (enn og aftur)?

Margrét Sigurðardóttir, 24.5.2009 kl. 23:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband