Misheppnuð upplýsingagjöf – eða hvað?
26.5.2009 | 00:21
Stjórnvöld eiga í vandræðum með að kynna aðgerðir sínar í efnahagsmálum og til bjargar fyrirtækjum og heimilum. Getur það verið að það sé vegna þess að engar áætlanir eru uppi? Að verkefnið sé of stórt fyrir smáa þjóð að höndla? Eða er það bara vegna þess að ráðgjafar stjórnvalda í upplýsingagjöf og markaðsfólkið eru ekki að ná utanum verkefnið að koma skilaboðunum til almennings þannig að tilætluðum árangri verði náð?
Það vakti athygli fyrir nokkrum dögum þegar Upplýsingamiðstöð stjórnvalda birti heilsíðu blaðaauglýsingu um úrræði til handa þjóð í vanda. Verið var að auglýsa island.is. Í auglýsingunni er bent á rafrænar upplýsingasíður um allt sem herjar á þjóðina núna; úrræði vegna efnahagsþrenginga, hvar á að leita eftir aðstoð, endurreisn fjármálakerfisins, leiðir fyrir fyrirtæki í vanda, já og einnig fjölskyldur o.s.frv. Eftir að hafa rennt yfir allar þær leiðir sem þarna voru tíundaðar og eru til þess fallnar væntanlega að hjálpa þjóð úr dimmu í dagsbirtu, þá kom rúsínan í pylsuendanum. Neðst á síðunni er nefnilega bent á upplýsingasíðu um hvar megi tjalda á Íslandi!! Þetta er húmor í lagi. Þegar almenningur er búinn reyna allar neyðarleiðirnar og ekkert virkar þá þarf hann að sjálfsögðu að vita hvar megi tjalda á Íslandi. Er þessi upplýsingasíða um tjaldstæði ætluð þeim fjölskyldum sem munu missa allar eigur sínar? Þá er nú gott að vita hvar má tjalda! Þetta kallar maður nú kímni í lagi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Stjórnvöld hafa nú alveg kynnt stefnu sína um greiðsluaðlögun fyrir heimilin -- en það þarf góðan vilja til að kalla hana björgunaraðgerð. Almennar aðgerðir eru það sem á að grípa til, til dæmis að færa niður vísitöluna.
Vésteinn Valgarðsson, 26.5.2009 kl. 12:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.