Hefði mátt vera hvassari í framsetningu.
26.5.2009 | 23:59
Þorfinnur Guðnason kvikmyndaleikstjóri skrifar ágætt andsvar í Fréttablaðið þann 20. maí. Hann er þar að bregðast við greinaskrifum Skúla Thoroddsen og Jóns Kristjánssonar vegna myndar hans og Andra Snæs Magnasonar Draumalandið. Þorfinnur skrifar andsvar sitt á umburðarlyndan og kurteisan hátt. Sem er jú alveg sjálfsagt. En ef hægt væri að gagnrýna Draumalandið fyrir eitthvað þá er það umburðarlyndi og kurteisi við aðalleikarana í þeim þjóðarharmleik sem Kárahnjúkavirkjun og álverið á Reyðarfirði eru. Draumalandið var löngu tímabær mynd. Hún hefði þó að mínu áliti mátt vera enn ákveðnari í frásögn sinni, hvassari í endursögninni og óvægnari í lýsingu á framgöngu manna. Því nota bene, þessi skelfing er verk ákveðinna manna og kvenna. Sanngjarnt hefði verið að gefa formönnum stjórnarflokkana og einstökum ráðherrum enn meira pláss og lýsa inngripum og ákvörðunum nánar í því ferli þegar verið var að troða þessum óskapnaði ofan í þjóðina. Næst á eftir stærsta þjófnaði í sögu Íslands, sem var setning kvótalaganna, þá er Kárahnjúkavirkjun stærsta glæpaverk Íslandssögunnar. Þeirri glæpasögu er langt frá því lokið því við sem nú lifum eigum eftir að sjá hærri reikninga fyrir þessu óhæfuverki en við getum ímyndað okkur í dag. Svo ekki sé talað um afkomendur okkar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.